SAM-HJÁLP

Einn getur ekki gert allt en margir geta gert eitthvað

HJÁLPUMST AÐ

Það er frásögn í Biblíunni um fjóra menn sem hjálpuðu hinum fimmta.

Sá var lamaður, gat sig því hvergi hreyft og var algjörlega háður hjálp annarra. Nú fréttist að Jesús væri kominn til bæjarins. Fólk streymdi að húsinu þar sem Jesús var og fyrr en varði var húsið fullt út að dyrum. þegar fjórmenningarnir fréttu af komu Jesú voru þeir staðráðnir í að hjálpa lamaða félaga sínum að komast til Jesú. Hann þurfti svo sannarlega á lækningu að halda. Þegar þeir komu að húsinu sáu þeir að múgur og margmenni stóð fyrir utan húsið og var fólk að reyna komast inn en án árangurs. Þeir létu ekki hugfallast og voru staðráðnir í að vinur þeirra yrði að fá lausn og lækningu. Eftir nokkrar umræður og bollaleggingar ákváðu þeir að ná í kaðla. Meðan einn þeirra hljóp til að útvega þá, byrjuðu hinir að rífa þakið á húsinu fyrir ofan þar sem Jesús var að tala til fólksins sem var innandyra. Því næst bundu þeir kaðlana fjóra í hvert horn á börunum sem hinn lamaði lá á og létu hann síga niður framan við Jesú. Þegar Jesús sá trú þeirra og staðfestu, talaði inn í aðstæður lamaða mannsins og læknaði hann. Á þeirri stundu varð hann alheill og byrjaði að ganga. Samhjálp varð til þess að vinur þeirra losnaði úr viðjum lömunarveikinnar. þannig starfar Samhjálp. Einn getur ekki gert allt, en margir geta gert svolítið. Við sem störfum í Samhjálp leggjum okkur öll fram um að hjálpa þeim sem þurfandi eru og hafa orðið vímuefnum að bráð. Aðrir styðja við starfið með fjárframlögum og öðrum gjöfum. Þannig stöndum við öll að Sam-hjálp. Ég færi öllum sem lagt hafa starfinu lið með einum eða öðrum hætti, kærar þakkir og óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og blessunar á nýju ári. 

Vörður Leví Traustason Framkvæmdastjóri Samhjálpar