Saga Samhjálpar
Upphaf Samhjálpar starfsins má rekja til ársins 1971. Georg Viðar Björnsson var illa farinn vegna áfengis og eiturlyfjaneyslu. Hann fór í meðferð hjá LP stiftelsen í Svíþjóð. Eftir meðferðina í Svíþjóð, kom Georg heim til Íslands og fékk inni í bílskúr á Sogavegi 158. Hann fékk strax löngun til að hjálpa gömlu drykkjufélögunum og heimsótti m.a Litla-Hraun, Gunnarsholt, Víðines og Skólavörðustíg 9. Hann fór oft niður á togarahöfnina og um borð í skipin og ræddi við fyrri félaga sína um lausnina og frelsið sem hann hafði eignast og reglulega vildu sumir þeirra fylgja honum heim og þiggja aðstoð í bágum kringumstæðum. Ekki voru allir hrifnir af því að fyrrverandi afbrota- og drykkjumaður fengi að hýsa marga menn á eigin ábyrgð og töldu að heilbrigðisyfirvöld ættu að taka í taumana. Öðrum fannst þvert á móti að þetta ætti að styðja og í blaðagrein sem Svava Jakobsdóttir skrifaði í einu dagblaðanna, sagði hún það vera einkennilegt að menn fengju að liggja kaldir og svangir og jafnvel deyja í yfirgefnum bílum, undir bátum og á öðrum stöðum, en síðan fyndist sumum það rangt þegar maður, sem sjálfur hefði verið óreglumaður en náð sér upp úr því, vildi gera gott fyrir meðbræður sína.