„DAGURINN SEM VIÐ EIGNUÐUMST PABBA OKKAR AFTUR“

Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að reisa við brostin fjölskyldubönd sem farið hafa forgörðum vegna drykkju eða neyslu vímuefna. Vegna þessara þátta hefur fólk misst samband við foreldra sína, börnin sín eða aðra nákomna aðila og allur gangur er á því hvort þau sambönd verði reist við aftur. Það er þó tilfellið með Tryggva Magnússon og dætur hans tvær. Kristín Tryggvadóttir (f. 1983 og Unnur Dóra Tryggvadóttir (f. 1986 segja hér sögu sína í Samhjálparblaðinu ásamt Tryggva föður sínum. Tryggvi hefur nú verið edrú í rúm 23 ár og hann er lesendum Samhjálparblaðsins ekki ókunnugur því hann starfar í dag sem umsjónarmaður áfangaheimila Samhjálpar og er reglulegur pistlahöfundur í blaði Samhjálpar.

ÁRIÐ 1990, ÞEGAR ÞÆR UNNUR DÓRA OG KRISTÍN VORU AÐEINS FJÖGURRA OG SJÖ ÁRA, SKILDU FORELDRAR ÞEIRRA.

Fjölskyldan bjó þá í Neskaupstað og Tryggvi hafði átt við mikið drykkjuvandamál að stríða. Hann er fæddur árið 1962, byrjaði að drekka aðeins sextán ára gamall og var 28 ára gamall þegar hann og eiginkona hans skildu. Þá hafði áfengisneyslan í raun tekið völdin. Tryggvi hafði farið í sína fyrstu meðferð aðeins nítján ára gamall, árið 1981, en aldrei náð bata. Aðspurður um þennan tíma segist hann hafa verið mjög veikur og í raun hafi neyslan verið stjórnlaus. Mæðgurnar fluttust fyrst um sinn á Selfoss þar sem þær dvöldu hjá langömmu og afa stúlknanna. „Ég man vel eftir þessum tíma og hann var ekki góður,“ segir Kristín. Unnur Dóra var sem fyrr segir aðeins fjögurra ára gömul og man minna frá þessum árum. „Ég skildi þá ákvörðun mömmu þar sem það var ekki hægt að búa við þetta lengur,“ segir Kristín. „En söknuðurinn var mikill því pabbi var aldrei neitt annað en góður við okkur.

En skilnaðurinn reyndi mikið á mig á þessum tíma og ég þurfti að leita til skólasálfræðings vegna þess.“ Eðli málsins samkvæmt voru ekki mikil samskipti á milli feðginanna eftir skilnað þeirra hjóna. Á þessum tíma þóttu svokallaðar pabbahelgar ekki sjálfsagður hlutur, en þess utan hélt Tryggvi áfram að drekka. Móðir stúlknanna sá þó til þess að þær hefðu reglulega samband við föður sinn og hann hringdi í þær á merkisdögum, s.s. á afmælum og á hátíðisdögum. Þær heimsóttu þó föður sinn öðru hvoru. Þær bjuggu á Suðurlandi og Tryggvi réð sig í vinnu á sveitabæjum víða um Suðurland og starfaði þar sem vinnumaður. Unnur Dóra rifjar þó upp atvik sem er henni minnisstætt. Systurnar höfðu þá farið í heimsókn til föður síns á þann sveitabæ þar sem hann starfaði þá. Ábúendur voru ekki heima og Tryggvi var einn með systurnar á bænum. Hann datt þó í það og sofnaði loks inni fyrir. Á meðan léku stelpurnar sér einar úti og það vildi svo til að föðuramma þeirra, móðir Tryggva, hafði ákveðið að koma í heimsókn. Hún kom að stelpunum einum og Tryggva sofandi áfengisdauða inni fyrir og varð, eðli málsins samkvæmt, hvekkt við. „Amma lagði þá til við móður okkur að hann fengi ekki að hafa okkur aftur,“ rifjar Unnur Dóra upp. „Mamma var þó ekki sammála henni og lagði upp með að batnandi mönnum væri best að lifa. Hún hafði, þrátt fyrir allt sem á undan var gengið, einhverja trú á honum sem enginn annar hafði. Ef það væri ekki fyrir hana þá er alls óvíst að við værum í sambandi við pabba okkar í dag.“ Tryggvi tekur undir það. „Mamma ykkar á mikinn heiður skilið og það má aldrei gleyma því,“ segir Tryggvi.

SKÁLA FYRIR EDRÚMENNSKU FÖÐUR SÍNS

Þetta atvik varð þó ekki til þess að Tryggvi léti af drykkju sinni eða sækti sér aðstoð. „Það gerði það því miður ekki,“ segir Tryggvi aðspurður um það hvort þetta ástand hafi ekki hreyft nóg við honum til að fara í meðferð. „Það er í raun alveg ólýsanlegt hvað menn láta yfir sig ganga af vanlíðan í svona ástandi. Maður hefði haldið að svona atriði myndu vekja mann til alvarlegrar umhugsunar, en því miður dugði það ekki til. Alkóhólismi er sjúkdómur sem er bæði líkamlegur, andlegur og félagslegur. Það er mögulega þess vegna sem svona atriði hreyfa ekki nóg við þeim einstaklingum sem eru að takast á við alkóhólisma, jafnvel þó það stríði gegn allri skynsemi. Auðvitað verður maður tilfinningalega bældur þegar maður notar áfengi eða vímuefni.“

Aðspurð um frekari minningar frá æskuárum svarar Kristín að bragði að hún sé fegin því að yngri systir sín eigi ekki þær minningar sem hún á af föður sínum ölvuðum. Þess utan átti móðir þeirra oft erfitt með að draga fram lífið, hafði ekki mikið á milli handanna, einstæð með tvær dætur, og sú minning lifir með systrunum. Þann 1. ágúst 1994 fór Tryggvi þó í meðferð í Hlaðgerðarkoti og hefur verið edrú síðan. Hann dvaldi í Hlaðgerðarkoti í fimm mánuði. „Ástandið var þá orðið mjög slæmt,“ segir Tryggvi. „Það var ekki bara drykkjan heldur var ég orðinn félagslega fatlaður. Ég átti erfitt með að vera í kringum fólk, gat ekki unnið á stórum vinnustöðum o.s.frv. Það sem kannski bjargaði mér var að ég gat fengið vinnu á sveitabæjum og gerði það í nokkur ár. En sem betur fer komst ég í meðferð í Hlaðgerðarkoti og það bjargaði lífi mínu.“ „Þetta er dagurinn sem við eignuðumst pabba okkar aftur,“ skýtur Kristín inn í og bætir því við að öll haldi þau upp á daginn á hverju ári. „Stundum kemur þessi dagur upp á Verslunarmannahelgi þegar Þjóðhátíð í Eyjum stendur sem hæst. Þá skálum við systurnar fyrir pabba, sem felur auðvitað í sér smá kaldhæðni gagnvart þessu öllu saman,“ segir Kristín og uppsker hlátur föður síns.

OPINSKÁ SAMTÖL UM STÖÐUNA

Eftir að Tryggvi hafði lokið meðferð beið þeirra allra þó viðfangsmikið verkefni, að kynnast upp á nýtt. Tryggvi kynntist fljótlega nýrri konu og það setti strik í reikninginn fyrst um sinn. „Hún var nokkuð eldri en pabbi og átti barnabörn á aldur við okkur, sem kölluðu pabba okkar afa,“ segir Unnur Dóra og það er létt yfir henni þegar hún rifjar þetta upp. „Við systurnar vorum nú ekki par hrifnar af því og þetta pirraði okkur mikið til að byrja með.“ Kristín bætir því við að það hafi verið skrýtin tilfinning að eiga föður sem ekki hafði verið til staðar, en að þurfa síðan að eiga það sem kalla mætti venjuleg samskipti. Þær systur eru þó sammála um að hann hafi reynt sitt besta til að byggja grunninn að góðum samskiptum. Þá hafi einnig skipt máli að hann hafði, á þeim tíma sem hann var í drykkju, einnig reynt sitt besta miðað við það ástand sem þá var á honum. Það hafi lagt grunninn að því sem kom síðar. „Það var hins vegar ekkert traust til staðar og ég átti mjög erfitt með að fyrirgefa fyrst um sinn. Hann var búinn að svíkja svo oft áður að þetta tók tíma,“ segir Kristín. „Ef eitthvað bar út af þá var það alltaf fyrsta hugsun mín að hann væri aftur dottinn í það. Það var ekki fyrr en ég var orðin unglingur sem ég átti gott og heiðarlegt samtal við hann um það sem á undan var gengið. Það má segja að það hafi verið fyrsta skrefið í lækningunni og við eigum mjög gott samband í dag. En ég held að það væri ekki svona gott nema af því að við náðum að ræða opinskátt um hlutina.“

Unnur Dóra segist aðspurð ekki upplifa reiði eða biturð þegar horft sé til baka. Þess heldur sé hún þakklát fyrir að eiga samband við föður sinn í dag, sem sé ekki sjálfgefið miðað við það sem á undan er gengið. „Lexían er frekar sú að allir eigi skilið annan séns í lífinu,“ segir Unnur Dóra. „Stundum þurfa sénsarnir að vera fleiri en einn og fleiri en tveir, en þeir eru vonandi alltaf þess virði. Fyrir mér er það líka mikils virði að börnin mín fái að kynnast afa sínum, sem þau halda mikið upp á.“ En sér Tryggvi eftir tímanum sem hann missti af með dætrum sínum? „Já, það er auðvitað heilmikil eftirsjá,“ segir Tryggvi þegar þessi spurning er borin undir hann. „Maður nær að gera það upp að vissu leyti. Þetta er einn af þeim hlutum sem maður þarf að sætta sig við. Maður getur ekki breytt þessu eftir á þó maður vildi. Það er stórt atriði í bataferlinu, hvort sem maður er sjálfur alkóhólisti eða aðstandandi, að átta sig á því að fortíðinni verður ekki breytt.“ „En það hlýtur að hjálpa til hvað við eigum gott samband í dag,“ skýtur Kristín inn í. „Já, vissulega,“ svarar Tryggvi. „Það flýtir fyrir bataferlinu að eiga góð og heilbrigð samskipti eftir á, svona eins heilbrigð og þau verða í þessari fjölskyldu,“ bætir hann við og þau feðginin hlæja öll.

ALDREI OF SEINT AÐ SNÚA VIÐ BLAÐINU

Tryggvi bætir því þó við að einnig þurfi að horfa til baka og átta sig á því að hlutirnir voru ekki í lagi þegar hann byrjaði að drekka. „Þess utan, að þegar maður byrjar að drekka ungur þá hægist auðvitað á ýmsu, þar með talið á félagslegum þroska. Nú er ég að nálgast sextugt og ég er enn að læra hluti sem ég hefði e.t.v. átt að læra um þrítugt. En það gerir ekkert til, svona er bara staðan og maður heldur áfram að læra,“ segir Tryggvi.

„Það sem er mikilvægast í þessu er að það er aldrei of seint að snúa við blaðinu. Það gefst alltaf vonandi tími til að byggja upp samband við börnin sín, foreldra eða aðra sem eru nákomnir. Þó það kunni að hljóma einkennilega þá eru það út af fyrir sig forréttindi að vera alkóhólisti, því maður getur haldið sjúkdómnum niðri með því að neyta ekki áfengis eða vímuefna. Það er ekki þannig með alla sjúkdóma. Hlutverk aðstandenda er stundum ekki síður erfitt en þeirra sem eru að berjast við sjúkdóminn. Ég kannast sjálfur við það úr æsku því faðir minn drakk mikið og ég þekkti hann lítið sem barn og unglingur.“ Það fer ekkert á milli mála þegar maður heyrir þau feðgin tala saman að sambandið á milli þeirra er í dag traust og gott. Tryggvi heimsækir þær systur reglulega til Vestmannaeyja, þar sem þær eru báðar með fjölskyldur. Kristin á eitt barn með manni sínum og Unnur Dóra á tvö börn með sínum manni. „Þetta snýst mikið um að vera auðmjúkur gagnvart verkefninu, hlusta á þá sem hafa á undan gengið og horfa fram á við,“ segir Tryggvi að lokum.

ÁBYRGÐ OG TRAUST LYKILLINN AÐ BATAFERLINU

Tryggvi rifjar upp mikilvægan þátt í meðferðinni sem hafði mikil áhrif á hann. Það var að hann fékk ábyrgð og var treyst fyrir mikilvægum verkefnum. „Það skipti miklu máli hvernig tekið var á móti manni. Ég hafði nokkrum sinnum farið í meðferð á Vogi, en náði aldrei árangri. Það er samt rétt að taka fram að það bjargaði oft lífi mínu að fara þangað inn, þó svo ég hafi ekki náð bata,“ segir Tryggvi.

„En fljótlega eftir að ég hóf meðferð í Hlaðgerðarkoti þá var ég settur “á vaktir” eins og það var kallað þá. Þá svaraði maður í símann og gaf lyf þeim sem voru í niðurtröppun. Ég fór líka “á bílinn” eins og það var kallað. Bílinn var kallaður Svarti-Pétur og ég fékk það hlutverk á föstudögum að sækja fólk og sinna öðrum erindum. Þetta er allt miklu faglegra í dag og að sjálfsögðu fær enginn skjólstæðingur að meðhöndla lyf, enda eru nú bæði starfandi læknir og hjúkrunarfræðingur á staðnum. En á þessum tíma skipti það miklu máli að vera treyst fyrir verkefnum og fá ábyrgð. Um leið tekur maður ábyrgð á sjálfum sér og það flýtir fyrir bataferlinu.“